Yfirlýsing frá pislahöfundi

Töluverð umfjöllun hefur átt sér stað frá því að fyrsta ralli sumarsins lauk á laugardaginn var og þá sérstaklega um niðurstöðu dómnefndar um að ekki þætti tilefni til þess að veita refsingu fyrir meint brot þeirra félaga Guðmundar Höskuldssonar og Ólafs Ólafssonar. Undirritaður fjallaði um framangreint í samantekt frá keppninni í pistli sem birtist hér á síðunni á laugardaginn enda markmiðið með síðunni að koma fram með hlutlausa og skemmtilega umfjöllun um rallíþróttina á Íslandi.

Í morgun barst undirrituðum tölvupóstur frá manni sem þekktur er meðal akstursíþróttamanna á Íslandi fyrir störf hans í þágu íþróttarinnar og jafnframt sem gamals keppanda. Undirritaður hefur tekið þá ákvöðun að birta ekki nafn hans né tölvupóstinn í heild sinni heldur einungis að varpa skýrari ljósi á hvað kom fram í honum. 

Í þessum umrædda tölvupósti lýsti þessi tiltekni maður skoðunum sínum á skrifum undirritaðs á síðunni hvað varðar hið meinta brot Guðmundar og Ólafs. Maðurinn lýsti þeirri skoðunn sinni að Guðmundur hefði ekki gert neitt sem hefði átt að refsa honum fyrir enda hefðu þessi mál verið skilgreind af LÍA fyrir nokkrum árum. Þá var hann með ásakanir gagnvart undirrituðum um það að pirringur og óhlutleysi hefði áhrif á umfjöllun undirritaðs um þetta meinta brot og þeir sem fjalli um mótorsport yrðu að kynna sér þær reglur sem giltu þegar þeir nafngreindu keppendur í umfjöllunum sínum.

Í ljósi stöðu mannsins innan akstursíþróttarinnar og tengsla hans innan hennar dró undirritaður þá ályktun í morgun að pósturinn hefði ef til vill verið sendur fyrir tilstuðlan eins keppandans. Það hefur nú verið staðfest að svo er ekki!

Á Íslandi  ríkir tjáningarfrelsi, sem betur fer, og hafa allir rétt á að lýsa skoðun sinni þar á meðal undirritaður sem og þessi maður. Það skal tekið skýrt fram, hafi það ekki verið ljóst áður, að umfjöllun undirritaðs á síðunni hefur verið eins hlutlaus og vönduð og kostur er á, enda hefur undirritaður engra hagsmuna að gæta í tengslum við þetta tiltekna atvik.

Vissulega má gagnrýna marga hluti og er undirritaður ekki hafinn yfir gangrýni en telur þó að sér vegið þegar bornar eru upp á hann ásakanir eins og þær sem framan greinir. Í umfjöllun á síðunni um rallið á laugardaginn kom fram sú skoðun undirritaðs að dómnefndin hafi ekki tekið á málinu. Það er ekki rétt og ekki var rétt að alhæfa slíkt í umfjölluninni því vissulega var farið yfir málið, en ekki talin ástæða til þess að beita refsingum. Það er skoðun undirritaðs að sú ákvörðun hafi verið kolröng. 

Það er alltaf gott að menn geti deilt skoðunum sínum og rætt um einstaka atvik eins og það sem hér um ræðir en til þess að koma í veg fyrir skítkast og leiðindi í kjölfar þeirra væri rétt að dómnefndir sem færu yfir einstaka mál sem varðar hverja keppni birti opinberlega umfjöllun um hvert einstaka atvik sem dómnefndin hefur séð ástæðu til þess að fjalla um eða verið kært til hennar. Væri það gert lægju rök dómnefndar fyrir og hver og einn gæti síðan dæmt út frá þeim og öðrum staðreyndum sem þar kæmu fram. Með þessu má koma í veg fyrir ýmis leiðindi. Skorar undirritaður á dómnefndina í þessu tiltekna máli, sem og öðrum sem munu koma upp í framtíðinni, að birta ákvarðanir sínar og rökstuðning fyrir þeim opinberlega!

Undirritaður hefur tekið þá ákvörðun að halda áfram að skrifa um rall á Íslandi hér á síðunni þrátt fyrir efasemdir um tilgang þess í morgun, enda síðan gríðalega vel sótt síðustu vikur. Sú ákvörðun á ekki sýst að þakka þeim mikla stuðningi og áskorunum um áframhaldandi skrif sem undirrituðum hefur borist í dag.

Áfram íslenskt rall!

Halldór Gunnar Jónsson


Bloggfærslur 21. maí 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband