Aðalskoðunar rallinu lauk með sigri Hilmars og Dagbjartar
9.6.2012 | 21:01
Aðalskoðunar rallinu lauk fyrr í dag með sigri Hilmars B og Dagbjartar Rúnar. Það var Akstursíþróttafélag Suðurnesja (AÍFS) sem hélt þessa keppni og fá þeir hrós fyrir vel skipulagða og skemmtilega keppni.
AÍFS hélt uppá 30 ára afmæli í þessari keppni og voru með fullt af afmælispökkum af því tilnefni. Sem dæmi má nefna 20 þúsund króna verðlaun fyrir að sigra sérleið.
Nú þegar tveimur keppnum er lokið af fimm á Íslandsmótinu í rallakstri hafa parið frá Hafnarfirði sigrað báðar keppnirnar og þá er auðvita átt við þau Hilmar og Dagbjörtu. Þau hafa því miður ekki þurft að hafa mikið fyrir þessum tveim sigrum því aðal keppinautar þeirra hafa stimplað sig fljótt út þ.e. þeir Valdimar og Sigurjón, en þeir féllu úr leik í dag þegar keppnin var hálfnuð og voru þá 7 sekúndum á eftir 1. sæti. Valdimar og Sigurjón óku mjög vel í fyrri ferð á Djúpavatni og tóku þar þrjár sekúndur af parinu. Það var því verulega svekkjandi fyrir toppbaráttuna að þeir féllu úr leik næstu leið þar á eftir.
Það skal samt ekki tekið af Hilmari og Dagbjörtu að þau keyra mjög vel og hafa átt þessa tvo sigra fyllilega skilið. Eins og allir vita er Hilmar Íslandsmeistari frá því í fyrra.
Í öðru sæti lentu félagarnir Guðmundur og Ólafur Þór og sigruðu þeir jafnframt non turbo flokkinn. Þeir óku mjög vel alla keppnina og var gaman að sjá hvað Guðmundur kemur þessum Subaru bíl hratt áfram en hann er alveg óbreyttur eins og allir bílarnir í non turbo flokknum. Tími þeirra á Djúpavatni í átt að Grindavík var alveg fráfær eða 15:05. Þeir hafa nú sigrað báðar keppnirnar í non turbo flokknum en þrjár keppnir eru enn eftir og margt getur ennþá gerst.
Kristinn og Gunnar óku mjög vel á sínum Cherokee og uppskáru 3. sæti og sigur í jeppaflokki. Þeir tóku til að mynda þrisvar sinnum besta tíma yfir heildina á sérleiðum og var það var vel gert hjá þeim.
Það ætti ekki að koma neinum á óvart að feðginin Sigurður Óli og Elsa klárðu rallkeppni og gerðu það vel með því að lenda í 4. sæti. Sigurður sagði eftir keppnina að líklega þyrfti hann ný dekk fyrir næsta rall þar sem hann væri búin að keyra fyrstu tvö röllin á sömu dekkjum! Engum líkur faðir rallsins hann Sigurður og vonandi verður rallið svo heppið að hafa hann að minnsta kosti jafn lengi í ralli og hann er búin að vera, en hann byrjaði í ralli árið 1996.
Í 5. sæti lentu Bragi og Lejon eftir grimman en skynsaman akstur. Þeir félagar lentu í 2. sæti í non turbo flokki og eru aðeins fjórum stigum á eftir þeim Guðmundi og Ólafi Þór í Íslandsmótinu. Það verður forvitnilegt að fylgjast með þeirra slag á næstu mótum en þessar tvær áhafnir skera sig svolítið úr hvað hraða varðar í sínum flokki.
Baldur Haralds og Aðalsteinn aka eins og svo margir í non turbo flokki og lentu þar í 3. sæti og í því 6. yfir heildina. Þessir ungu menn lentu útaf á Djúpavatni og beygðu spyrnu og náðu ekki að aka eins hratt og þeir vildu eftir það. Þeir voru engu að síður að bæta mikið við hraðann frá fyrstu keppninni og verður spennandi að fylgjast með þeim í sumar.
Í 7. sæti komu Baldur Hlöðvers og Hjalti Snær og 4. sæti sætið var þeirra í non turbo flokknum. Þeir urðu fyrir því óláni á Djúpavatni að sprengja báða afturdemparana og urðu að aka með varadempara það sem eftir var af keppninni. Það háði þeim að einhverju leiti en þrátt fyrir það var Baldur eins og flestir ökumenn að bæta í hraða sinn frá fyrstu keppni.
Skagfirsku drengir þeir Þórður og Björn Ingi lentu í 8. sæti og 5. í non turbo. Þeir félagar fóru heldur ekki áfallalaust í gegnum þessa keppni því á Ökugerði-Stapafelli sprengdu þeir dekk og þurftu að skipta. Stuttu seinna sprakk aftur og þá urðu þeir að keyra nokkra km með sprungið dekkið.
Pétur bakari og Gunnar bílnet lentu í 9. sæti og í því síðasta af þeim sem kláruðu. Þeir sigruðu eindrifsflokkinn og gerðu vel að klára því þeir lentu í allskonar veseni í dag. Hin áhöfnin í eindrifsflokki þeir Henning og Árni féllu úr leik á Djúpavatni og voru fram að því búnir að keyra lista vel.
Því miður eru alltaf einhverjir sem að falla úr leik og voru alls 9 slíkar áhafnir sem er mjög mikið í 100 km ralli á sérleiðum.
Næsta rall fer fram eftir þrjár vikur og heyrst hefur úr skúrum rallaksturmanna að verulega komi til með að fjölga í toppbaráttunni. Vona ég að þessar sögur séu sannar og skora ég hér með á Danna, Marra, Jóa þýska, Jón Örn og Pétur bakara að mæta og reyna hafa í Hilmar Íslandmeistara!
Ehrally.is óskar öllum sigurveigurum til hamingju með árangur helgarinnar. Gaman er að sjá þann gríðarlega fjölda heimsókna sem síðan er að fá þessar vikur.
Myndir: Efsta tekin af Þórði Bragsyni af þeim Hilmari og Dagbjörtu á Djúpavatni í morgun. Myndin í miðjunni er af Guðmundi og Ólafi í fyrsta rallinu og neðsta myndin er einnig úr síðasta ralli af þeim Baldri og Hjalta.
Athugasemdir
flott samantekt hjá þér vinur..;-) mæli með að þú farir að skrifa fyrir blöðin...;-)
Pétur Sigurbjörn Pétursson (IP-tala skráð) 9.6.2012 kl. 21:56
Takk fyrir það vinur ;). Já það er alls ekki slæm hugmynd.
Heimir og Halldór Jónssynir, 10.6.2012 kl. 19:38
flott grein að vanda
kiddi sprautari (IP-tala skráð) 10.6.2012 kl. 20:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.